Þetta segir í yfirlýsingu frá Glitni. Þar segir ennfremur að nýverið leitaði Glitnir banki eftir því við Bjarna að félög í hans eigu endurgreiddu yfirverð í hlutabréfaviðskiptunum auk samningsvaxta. Á það var fallist. Glitnir banki fagnar því að Bjarni telur það ábyrgð sína að verða við málaleitaninni sem leiddi til þessa samkomulags. Greiðslan nú nemur ríflega 650 milljónum króna.
Fyrir rúmu ári síðan endurgreiddi Bjarni starfslokasamning sinn að eigin frumkvæði og námu greiðslur til bankans þess vegna alls kr. 370 milljónir króna. Greiðslur Bjarna til bankans vegna starfsloka hans hafa því numið u.þ.b. 1.020 milljónum króna.
Um fullnaðaruppjör milli aðila er að ræða sem felur auk þessa í sér að félög Bjarna, sem eiga u.þ.b. 273 milljóna króna skuldabréfakröfur á bankann, falla frá greiðslukröfum á hendur bankanum. Ekki eru uppi aðrar kröfur Bjarna eða félaga hans á hendur bankanum.