Innlent

Ingvi Hrafn gerir tæplega 30 milljóna króna kröfu í Glitni

Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN.
Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN. Mynd/Valgarður Gíslason
Fyrirtæki sjónvarpsstjórans Ingva Hrafns Jónssonar gerir 28,5 milljón króna kröfu í þrotabú Glitnis. Þetta kemur fram í kröfuhafalista sem fréttastofa hefur undir höndum. „Lögmaður Langárveiða taldi rétt að senda inn kröfuna. Ég reikna ekki með því að Langárveiðar flái feitan gölt af því," segir Ingvi Hrafn.

Málið snýst um kaup á veiðileyfum í Langá á Mýrum sumarið 2008. „Glitnir hafði pantað, keypt og staðfest hjá okkur veiðileyfi fyrir þessa upphæð en féll síðan frá því. Það var gengið frá þessu í október 2007," segir sjónvarpsstjórinn.

Ingvi Hrafn segir að bankinn hafi pantað nánast allar stangirnar í þrjár vikur. „Þetta var heilmikið. Þetta voru tíu stangir síðustu vikuna í júní, 12 stangir þrjá daga í júlí og 12 stangir í ágúst."

Það var komið undir páskana 2008 þegar ljóst var að Glitnir ætlaði ekki að standa við samkomulagið, að sögn Ingva Hrafns. „Þá var of seint að bjóða öðrum þetta af því að þá hafði veiðileyfimarkaðurinn þornað upp. Ég hefði getað verið búinn að selja þetta fimm sinnum um haustið 2007 en um vorið voru aðstæðar breyttar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×