Viðskipti innlent

Launakostnaður lækkar í verslun en hækkar í mannvirkjagerð

Heildarlaunakostnaður á greidda stund dróst saman um 1,5% í atvinnugreininni verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu og um 4,8% í iðnaði og samgöngum og flutningum á milli 1. ársfjórðungs 2009 og 4. ársfjórðungs 2008.

Á sama tímabili jókst heildarlaunakostnaður á greidda stund um 3,3% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitala heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna hækkaði í áðurnefndum atvinnugreinum frá fyrri ársfjórðungi.

Mest var breytingin í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 6,1%. Hækkunin var minni í öðrum atvinnugreinum eða á bilinu 0,2% til 1,9%. Vísitala heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna tekur aðeins tillit til greiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.

Hærri launakostnað á greidda stund í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð má rekja til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í íslensku atvinnulífi á undanförnum mánuðum. Merkjanlegur samdráttur hefur verið hvað mestur í þeirri atvinnugrein, sem til að mynda hefur birst í breytingu á samsetningu vinnuafls í greininni. Endurspeglast þær breytingar meðal annars í því að starfsfólki í lægri þrepum launastigans hefur fækkað hlutfallslega mest.

Ef horft er til breytinga heildarlaunakostnaðar á greidda stund milli ára þá eru breytingar einnig mestar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem aukningin var 14,7%. Heildarlaunakostnaður jókst um 2,0% í iðnaði, 1,6% í samgöngum og flutningum en heildarlaunakostnaður í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu dróst hins vegar saman um 3,7% frá fyrra ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×