Viðskipti

FL Group staðist mótbyr

Þrátt fyrir að smærri hluthafar sætu hjá samþykktu eigendur tæplega 99,9 prósent hlutafjár afskráningu FL Group. Fréttablaðið/Arnþór
Þrátt fyrir að smærri hluthafar sætu hjá samþykktu eigendur tæplega 99,9 prósent hlutafjár afskráningu FL Group. Fréttablaðið/Arnþór
Stjórnarformaður FL Group segir félagið ekki hlaupa af markaði með skottið á milli lappanna. Búið sé að taka ábyrgðar ákvarðanir varðandi rekstur og fjárfestingar og eiginfjárstaða félagsins sé sterkt. Hluthafar samþykktu að afskrá FL Group í gær. Stjórnendur fá aukið svigrúm segir Jón Ásgeir.

„Einhver kann að segja sem svo að FL Group sé að hlaupa af markaði með skottið á milli lappanna eftir mikið tap síðustu mánuði. Það er alls ekki svo. Það er auðvitað staðreynd að tapið hefur verið mikið en við höfum staðið af okkur mótbyrinn eins og komið hefur fram. Í uppgjöri félagsins í [fyrradag] er staða FL Group mjög sterk með eiginfjárstöðu uppá 115 milljarða,“ sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, þegar hann kynnti tillögu um afskráningu félagsins á hluthafafundi í gær.

Eigendur 99,86 prósenta hlutafjár samþykktu afskráninguna á fundinum í gær. Einn fundarmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni en sjö fundarmenn sátu hjá. Aðrar tillögur sem lágu fyrir fundinum, meðal annars um skiptahlutfall bréfa í FL Group og Glitnis, voru samþykktar mótatkvæðalaust.

Jón Ásgeir sagði við hluthafa að stjórnendur félagsins hefðu horft í augu við erfiðleikana og tekið ábyrgar ákvarðanir tengdar endurskipulagningu á fjárfestingum og rekstri félagsins. Í því sambandi hefði verið lyft grettistaki á nokkrum mánuðum. „Afskráning félagsins er aðeins rökrétt framhald á þeirri endurskipulagningu sem fór fram á síðustu mánuðum. Afskráningin gefur stjórnendum aukið svigrúm til að framfylgja langtímaáætlunum um markmið félagsins.“

Samkvæmt upplýsingum frá FL Group ætla eigendur að minnsta kosti 83 prósent hlutafjár í félaginu að vera áfram hluthafar. Þeir sem ekki vilja eiga óskráð bréf geta fengið bréfunum skipt fyrir hlutabréf í Glitni. Jón Ásgeir sagði skiptahlutföllin betri en hefðu boðist undanfarið á markaðnum. Ef hluthafi sem á 100 þúsund hluti í FL Group ákveður að skipta þeim út fær hann 39 þúsund bréf í Glitni.

Markaðsverðmæti 100 þúsund FL bréfa í gær var um 644 þúsund en 39 þúsund hlutir í Glitni voru um 663 þúsund króna virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×