Handbolti

Sigur hjá Lemgo

Vignir Svavarsson, leikmaður Lemgo.
Vignir Svavarsson, leikmaður Lemgo. Nordic Photos / Bongarts

Lemgo vann í kvöld góðan sigur á Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Logi Geirsson komst ekki á blað hjá Lemgo en hann hefur fá tækifæri fengið á tímabilinu.

Lemgo vann sex marka sigur, 31-25, eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 15-15. Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk fyrir Lemgo og Jaliesky Garcia sömuleiðis þrjú fyrir Göppingen.

Hamburg tapaði afar óvænt fyrir Balingen á útivelli, 28-26, en ekkert virðist ganga hjá Hamburg sem var spáð góðu gengi fyrir tímabilið. Liðið er nú í níunda sæti deildarinnar og hefur tapað fjórum leikjum til þessa.

Þá tapaði Minden fyrir Magdeburg á útivelli, 30-21. Gylfi Gylfason skoraði fjögur mörk fyrir Minden en Ingimundur Ingimundarson ekkert.

Að síðustu vann Füchse Berlin nokkuð óvæntan sigur á Nordhorn, 30-29. Nordhorn er í fjórða sæti deildarinnar með sautján stig, rétt eins og Magdeburg. Füchse Berlin er í áttunda sæti.

Lemgo er nú í öðru sæti deildarinnar með nítján stig, tveimur á eftir toppliði Kiel sem á leik til góða. Flensburg er í þriðja sæti með sautján stig en á tvo leiki til góða.

Minden er í fimmtánda sæti með fimm stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×