Innlent

Segir seðlabankastjóra valda sífellt meiri skaða

MYND/Vilhelm

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, fer hörðum orðum um Davíð Oddsson seðlabankastjóra á bloggi sínu um leið og hann kallar eftir alvöru aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar við efnahagsástandinu.

Í færslu á bloggi Eyjunnar segir Guðmundur að aðilar vinnumarkaðs hafi ítrekað spáð uppsögnum nú í haust ef ekkert yrði að gert. Hingað til hafi atvinnuleysið verið flutt út með því að erlendir launamenn flytji af landi brott en nú standi yfir hópuppsagnir Íslendinga. „Afleiðingar tortímingarstefnunnar með svimandi vöxtum og hárri verðbógu er að koma fram. Þeim fyrirtækjum fækkar óðum sem eiga fyrir útborgun launa. Úr því menn völdu þá leið að halda krónunni áttu þeir að gera viðeigandi ráðstafnir en gerðu það ekki," segir Guðmundur.

Enn fremur segir formaður Rafiðnaðarsambandsins að nú komi Davíð Oddsson fram með reyksprengjur og fari að skipta sér af stjórnmálum með því að leggja til þjóðstjórn. „Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur.

Erlent fjármagn þurfi inn í íslenskt efnahagslíf og eina leiðin til þess að skapa tilrú og fá aðstoð sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta hafi verið staðreynd lengi. „En það hafa ráðið ferðinni menn sem er ómögulegt að viðurkenna fyrri mistök og móta viðhorf sín á öðru fólki á blindu hatri. Mönnum sem var slakað úr stjórmálum í Seðlabankann og áttu þar með að hverfa af hinu pólitíska sviði. En það hafa þeir ekki gert og valda sífellt meiri skaða.

Nú þarf ríkisstjórnin að taka þau völd sem hún var kosinn til og taka til við að stjórna landinu, líka efnahagslífinu. Alvöruaðgerðir strax, annars fer enn verr," segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×