Viðskipti erlent

Samkeppniseftirlitið vinnur að skýrslu um eignatengsl

Samkeppniseftirlitið er að vinna að skýrslu um eignatengsl í íslensku atvinnulífi og þann lærdóm sem hægt er að draga af þeim tengslum sem hafa verið fyrir hendi.

Ljóst er að krosseignatengsl, hulið eignarhald og ógagnsæ hagsmunatengsl geta raskað samkeppni og unnið gegn heilbrigðum fyrirtækjarekstri. Í skýrslunni verður fjallað um þetta og bent á lausnir til úrbóta.

Þetta kom fram á fréttamannafundi í dag þar sem viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið kynntu vinnu við opnun markaða og eflingu atvinnulífs undir yfirskriftinni „Öflug uppbygging vegna efnahagsörðugleika."

Fram kom að útboð og innkaup ríkis og sveitarfélaga geta haft umtalsverð áhrif á samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Hið sama gildir um ýmis konar þátttöku eða afskipti opinberra aðila af fyrirtækjarekstri. Samkeppniseftirlitið vinnur að athugun á þessu og stefnir að því að beina leiðbeiningum til opinberra aðila um aðgerðir sem eflt geta samkeppni og bætt hagsmuni almennings.

Í framhaldi af efnahagshruni hér á landi eiga mörg fyrirtæki í erfiðleikum, atvinnuleysi eykst og heimili glíma við skuldir og skertar tekjur. Hætta er á því að fyrirtækjum fækki á mikilvægum mörkuðum vegna rekstrarörðugleika. Við þessar aðstæður er hætta á því að samkeppnishömlur og fákeppni fari vaxandi.

Afar brýnt er að stjórnvöld og fyrirtæki geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að takmarka tjón samfélagsins af skertri samkeppni. Jafnframt er mikilvægt að læra af fenginni reynslu með það í huga að skapa forsendur fyrir heilbrigðari og samkeppnishæfari fyrirtækjarekstri. Rannsóknir í hagfræði og reynsla annarra landa sem gengið hafa í gegnum sambærilega erfiðleika sýnir að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.

Með þetta að leiðarljósi er brýnt að ráðast í aðgerðir til þess að opna markaði og viðhalda eða efla samkeppni hér á landi. Með því móti er greitt fyrir atvinnuskapandi fyrirtækjarekstri.

Til þess að takmarka eins og kostur er tjón af skertri samkeppni er afar mikilvægt að bankar sem nú eru í eigu ríkisins hafi hliðsjón af þeim mikilvægu langtímahagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist, þegar ákvarðanir eru teknar um framtíð fyrirtækja. Með þetta í huga hefur Samkeppniseftirlitið beint því til bankanna að hafa tilteknar tíu meginreglur til hliðsjónar við slíkar ákvarðanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×