Úrslitakeppni NBA-deildarinnar hefst á morgun þegar fjórar af átta fyrstu rimmunum í fyrstu umferð keppninnar fara af stað.
Það stefnir í einhverja mest spennandi úrslitakeppni í manna minnum, þá sérstaklega í Vesturdeildinni. Meistararnir í San Antonio eiga ekki auðvelt verkefni fyrir höndum strax í fyrstu umferðinni en þar mætir liðið Steve Nash, Amare Stoudemire, Shaquille O'Neal og félögum í Phoenix.
Reyndar eru allar viðureignirnar í Vesturdeildinni afar athyglisverðar. Það er ekki hægt að bóka annað liðið áfram í neinni rimmu. Efsta liðið í deildinni, LA Lakers, mætir Denver í fyrstu umferðinni en getur alls ekki bókað auðveldan sigur þar.
Í Austurdeildinni er ekki útlit fyrir jafn mikla spennu en þar er nánast hægt að stóla á að Boston og Detroit komist áfram í næstu umferð. Orlando varð í þriðja sæti deildarinnar og mætir Toronto sem gæti verið athyglisverð rimma.
Þá verður einnig athyglisvert að sjá þegar þeir LeBron James og Gilbert Arenas mætast á vellinum í rimmu Cleveland og Washington.
Hér, á heimasíðu NBA, má sjá dagskrá fyrstu umferðar úrslitakeppninnar. Sem fyrr segir hefjast fyrri fjögur einvígin á morgun og hin á sunnudaginn.
NBA TV er á rás 48 á Digital Ísland og verður með beina útsendingu á hverju kvöldi í fyrstu tveimur umferðunum. Stöð 2 Sport mun einnig sýna valda leiki í beinni útsendingu en það kemur betur í ljós þegar á líður hvaða leikir það verða.
Á NBA-bloggi Vísis má fylgjast með dagskrá NBA TV. En nú þegar hefur verið ákveðið hvaða leikir verða í beinni fyrstu dagana í úrslitakeppninni.
Laugardagur 19. apríl kl. 16.30: Cleveland - Washington #1
Sunnudagur 20. apríl kl. 00.30*: Boston - Atlanta #1
Mánudagur 21. apríl kl. 01.30*: Houston - Utah #2
Þriðjudagur 22. apríl kl. 23.00: New Orleans - Dallas #2
Miðvikudagur 23. apríl kl. 23.30: Detroit - Philadelphia #2
Fimmtudagur 24. apríl kl. 23.30: Toronto - Orlando #3
Föstudagur 25. apríl kl. 23.00: Philadelphia - Detroit #3
Laugardagur 26. apríl kl. 19.00: Toronto - Orlando #4
Sunnudagur 27. apríl kl. 19.30: Phoenix - San Antonio #4
Mánudagur 28. apríl kl. 00.00*: Atlanta - Boston #4
*Aðfaranótt næsta dags