Handbolti

Hamburg vann góðan sigur á Nordhorn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Gylfason skoraði fimm mörk fyrir Minden í dag.
Gylfi Gylfason skoraði fimm mörk fyrir Minden í dag.

Þremur leikjum er lokið í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Hamburg vann afar dýrmætan sigur á Nordhorn, 33-29, á útivelli.

Hamburg hefur ekki byrjað nægilega vel á leiktíðinni en liðinu var spáð góðu gengi í haust. Margir töldu að Hamburg væri eina liðið sem gæti veitt Þýskalandsmeisturum Kiel einhverja samkeppni.

Pólverjinn Marcin Lijewski skoraði átta mörk fyrir Hamburg í dag og Hans Lindberg sex. Hjá Nordhorn var Erlend Mamelund markahæstur með níu mörk og Nicky Verjans kom næstur með fimm.

Þá skoraði Gylfi Gylfason fimm mörk fyrir Minden sem lagði nýliða Dormagen á heimavelli, 30-24. Ingimundur Ingimundarson bætti við þremur mörkum fyrir Minden.

Að síðustu vann Wetzlar stórsigur á botnliði Stralsunder á útivelli, 30-17. Wetzlar er í fjórtánda sæti deildarinnar.

Eftir sigurinn í dag er þó Hamburg enn í áttunda sæti deildarinnar en nú með þrettán stig eftir tíu leiki. Nordhorn er í fjórða sæti með sautján stig.

Minden er nú í þrettánda sæti deildarinnar með sex stig en Dormagen er í sextánda sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×