Viðskipti innlent

Stjórn Icelandair Group gefur yfirlit um afkomu

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Í ljósi óvenjulegra aðstæðna á fjármálamörkuðum hefur stjórn Icelandair Group samþykkt að senda frá sér tilkynningu um óendurskoðað uppgjör og yfirlit um rekstur félagsins á fyrstu 8 mánuðum ársins 2008.

Tekjur samstæðunnar eru 72 milljarðar króna, sem er 68% aukning frá sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta er 6,3 milljarðar króna, sem er 43% aukning frá sama tíma í fyrra eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Reksturinn hefur gengið vel á árinu

„Rekstur félaga innan Icelandair Group hefur gengið vel á þessu ári. Tekjur hafa aukist verulega og afkoma batnað þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, sem sýnir styrk og sveigjanleika félagsins. Sjóðstaða félagsins er góð og næsti stóri gjalddagi lána er í lok janúar 2009 vegna 2,5 milljarða króna skuldabréfs í eigu íslenskra aðila. Unnið er að fjármögnun vegna þess. Athygli er vakin á því að kaup félagsins á erlendum fyrirtækjum hafa ekki verið fjármögnuð með erlendum lántökum," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

„Við þær aðstæður sem nú hafa skapast á íslenskum hlutabréfamarkaði er rétt að leggja áherslu á fjölþættingu félagsins. Icelandair Group er alþjóðleg samstæða 12 dótturfélaga með rekstur um allan heim. Tekjur koma frá mörgum landsvæðum og frá ólíkum þjónustuþáttum og einungis um 25% af tekjum samstæðunnar eru í íslenskum krónum. Félagið á viðskipti í mörgum gjaldmiðlum en stærstur hluti veltunnar er í erlendri mynt; evrum, dollurum og tékkneskum krónum. Veikt gengi íslensku krónunnar hefur í heild jákvæð áhrif á gengismun félagsins. Þá hefur eldsneytisverð á heimsmarkaði farið lækkandi á síðustu vikum sem kemur vel við rekstur fyrirtækja félagsins.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×