Innlent

Gengið til samninga við lægstbjóðanda

MYND/Vilhelm

Vegagerðin hyggst ganga til samninga við fyrirtækin Toppverktaka og Adakris um að ljúka framkvæmdum við breikkun Reykjanesbrautar.

Fyrirtækin áttu lægsta tilboð í framkvæmdirnar sem snúa að breikkun vegarins frá Strandarheiði að Njarðvík ásamt frágangi við vegamót Vogavegar, Grindavíkurvegar, Stapahverfis og Njarðvíkurvegar með tilheyrandi römpum, hringtorgum og þvervegum.

Tilboð félaganna hljóðar upp á 698 milljónir sem er um 90 prósent af áætluðum verkkostnaði. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, má reikna með því að það taki tvær til þrjár vikur að ræða við lægstbjóðendur. Þetta séu nýir aðilar sem Vegagerðin þekki ekki og fara verði yfir það að menn geti staðið við tilboðið.

Samkvæmt útboðsskilmálum á að koma á umferð á allar fjórar akreinar Reykjanesbrautar fyrir miðjan október og að sögn Péturs má búast við að þrengingum á veginum fækki smám saman þegar líður á árið.

Sem fyrr segir er um að ræða verklok á Reykjanesbraut en verktakinn Jarðvélar sagði sig frá verkinu undir lok síðasta árs og var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×