Innlent

Sturla mætti einn til skýrslutöku

MYND/Frikki Þór

Sturla Jónsson, talsmaður og leiðtogi vörubílstjóra í mótmælum þeirra undanfarnar vikur, mætti til skýrslutöku hjá lögreglu nú skömmu fyrir klukkan níu.

Hann kom ásamt lögfræðingi sínum en enga vörubíla var að sjá en Sturla hafði sagt í gær að hugsanlega myndu félagar hans fylgja honum á bílum sínum á lögreglustöðina. Skömmu eftir klukkan níu mættu hins vegar um tíu félagar hans fyrir utan lögreglustöðina en þeir voru þó ekki á bílum. Tveir vörubílar komu svo skömmu síðar.

Sturla var boðaður í skýrslutöku vegna aðgerða vörubílstjóra síðustu tvær vikur, en eins og alþjóð veit hafa þeir stöðvað umferð á mikilvægum umferðaræðum til þess að vekja athygli á kröfum sínum. Þeir vilja meðal annars að ríkið lækki álögur á eldsneyti, breyti lögum um hvíldartíma og komi upp hvíldarstöðum fyrir atvinnubílstjóra við þjóðveginn víða um land.

Fundir með samgönguráðherra og fjármálaráðherra hafa engu skilað að mati vörubílstjóra sem vilja aðgerðir strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×