Viðskipti innlent

Björgólfur fellur á lista Forbes þrátt fyrir jafnmiklar eignir

Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður er í 307. sæti á nýjum lista Forbes yfir ríkustu menn heims og nema eignir hans 3,5 milljörðum dollara, eða um 227 milljörðum króna. Hefur hann fallið úr 249. sæti eða um 58 sæti frá því í fyrra en þá voru eignir hans metnar jafnmiklar.

Fram kemur í grein Forbes að Björgólfur hafi ásamt öðrum stofnað Bravo-bjórverksmiðjuna í Rússlandi og selt Heineken í febrúar 2002. Ágóðann hafi hann nýtt til fjárfestinga á á Íslandi og Austur-Evrópu.

Bent er á að Björgólfi Thor hafi gengið vel á síðasta ári. Hann hafi keypt Actavis, selt hlut í búlgarska símanum BTC fyrir um 150 milljarða og hlut í búlgarska bankanum ElBank fyrir um 20 milljarða. Þá kemur fram að Björgólfur eigi hlut í Landsbankanum, pólska fjarskiptafyrirtækinu Play og fasteignir í Rúmeníu, Skandinavíu, Spáni og Tyrklandi og víðar í Austur-Evrópu.

Björgólfur Guðmundsson, faðir Björgólfs Thors, er í 1014. sæti á listanum í ár með 1,1 milljarðs dollara eignir, jafnvirði rúmlega 70 milljarða króna. Hann var í 799. sæti í fyrra en þá voru eignir hans metnar upp á 1,2 milljarða dollara.

Listi Forbes leiðir einnig í ljós að ofurfjárfestirinn Warren Buffett er nú ríkasti maður heims en auðæfi hans uxu á síðasta ári úr 52 milljörðum dollara upp í 62 milljarða dollara, eða í rúma fjögur þúsund milljarða. Auður Bill Gates jókst um tvo milljarða dollara á síðasta ári en með því náði hann þriðja sætinu á lista Forbes. Í öðru er Mexíkóinn Carlos Slim Helu.


Tengdar fréttir

Bill Gates er ekki lengur ríkasti maður heimsins

Bill Gates stofnandi Microsoft er dottinn af stallinum sem ríkasti maður heims eftir að hafa trónað þar undanfarin 13 ár. Samkvæmt árlegum lista Forbes tímaritsins er ofurfjárfestirinn Warren Buffett nú ríkasti maður heims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×