Handbolti

Íslendingar fjölmenna til Noregs

AFP
Vel á fjórða hundrað manns fóru frá Íslandi í dag gagngert til að fylgjast með leik Íslendinga og Svía á Evrópumótinu í handbolta í kvöld. Alls er búist við því að um fimmhundruð Íslendingar verði í höllinni í Þrándheimi.

Íslenskir handboltaáhugamenn fjölmenntu til Noregs í dag til að styðja íslenska liðið í kvöld. Tvær vélar fóru frá Reykjavíkurflugvelli og ein Boeing þota frá Keflavíkurflugvelli með samtals um 350 manns.

Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóri HSÍ sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag að síminn hjá sér hefði vart stoppað, líkt og á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í fyrra, nema hvað í þetta sinn er mun auðveldara að nálgast miða á leikina. Áhugasömum er bent á að fara á vef mótsins en hlekk á hann má finna inni á hsi.is.

Einar sagði fjölmarga Íslendinga búsetta í Skandinavíu hafa haft samband við handknattleikssambandið vegna leiksins og má lauslega gera ráð fyrir því að um fimmhundruð íslenskir áhorfendur verði í höllinni í Þrándheimi í kvöld.

Af 16 manna landsliðshópi Alfreðs Gíslasonar verða tveir sem hvíla í kvöld en aðeins má vera með 14 leikmenn á skýrslu. Í kvöld hvíla Sverre Jakobsson og Bjarni Fritzson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×