Handbolti

Hannes Jón eins og ballerína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Sveinsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Sigurður Sveinsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
„Ég er fullur eftirvæntingar. Þetta verður algjör veisla," sagði Sigurður Sveinsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Ég ætla að byrja á því að horfa á Noreg-Danmörk og svo á Ísland-Svíþjóð," sagði Sigurður en öll liðin spila á EM í dag og því mikið um að vera.

En aðalmálið er leikur Íslands og Svíþjóðar sem er án efa einn af stærstu leikjum dagsins.

„Það væri ágætt að fara auðveldu leiðina einu sinni, ekki þá erfiðu eins og svo oft áður. En það er erfitt að spá fyrir um þetta enda svo gríðarlega jafnt mót. Ég gef þess vegna lítið fyrir þær spár sem hafa birst síðustu daga. Þetta getur farið á hvaða veg sem er."

Sigurður hefur áhyggjur af vinstri væng landsliðsins í ljósi þeirra meiðsla sem hafa hrjáð rétthentar skyttur liðsins.

Arnór Atlason heltist úr lestinni á síðustu stundu og fór ekki með til Noregs.

„Logi og Garcia hafa þar að auki verið mikið meiddir en Logi hefur verið góður í síðustu leikjum. Annars efast ég ekki um að menn séu klárir í slaginn og hef ég ekki miklar áhyggjur af sóknarleiknum. Kannski helst að ég hafi áhyggjur af því að menn séu ekki nógu fljótir að bakka í vörn."

Svíar mæta til lið með sterkt lið í kvöld.

„Ég býst við því að Alfreð byrji með 5-1 varnarleik með Guðjón Val fremstan gegn Kim Andersson. Þá er bara um að gera fyrir hina varnarmennina að vera á tánum."

„Svo er aldrei að vita að við eigum leynivopn í Hannesi Jóni. Hann dansaði eins og ballerína í leiknum um helgina. Tékkarnir kiknuðu hreinlega í hnjáliðunum og eru sennilega enn að jafna sig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×