Viðskipti innlent

Norðmenn kæra Glitni fyrir fjárdrátt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Norðmenn hafa kært Glitni fyrir að stinga undan sjö milljörðum íslenskra króna eftir að lán til þriggja aðila hafði verið greitt til baka og runnið í sjóði bankans, en ekki til upphaflegs lánardrottins.

Útflutningsbankastofnun ríkis og fjármálafyrirtækja í Noregi, Eksportfinans, segir Glitni hafa stungið upphæðinni undan, 415 milljónum norskra króna, eða sjö milljörðum íslenskra. Gisele Marchand, forstöðumaður Eksportfinans, segist furða sig á viðskiptasiðferði Glitnismanna.

Lánin sem um ræðir eru þrjú og voru veitt af Eksportfinans árið 2005 með Glitni sem millilið. Hafði Eksportfinans einungis samskipti við skuldunauta sína gegnum bankann. Þegar íslenska ríkið yfirtók Glitni segir Marchand að Eksportfinans hafi haft samband við skuldunautana og rætt um að þeir gerðu lánin upp milliliðalaust við Eksportfinans. Þá hafi komið í ljós að öll lánin hafi verið endurgreidd til Glitnis, eitt þeirra árið 2006 og hin tvö á þessu ári.

Glitnir hafi haldið fénu eftir en greitt áfram vexti og afborganir til Eksportfinans líkt og lánin hafi ekki verið greidd. Þetta segist Marchand líta á sem fjárdrátt og hefur stofnunin kært Glitni til lögreglu. Hún leggur þó sérstaka áherslu á að Glitnir í Noregi tengist málinu ekki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×