Körfubolti

Argentína og Bandaríkin mætast í undanúrslitum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leik Bandaríkjanna og Ástralíu.
Úr leik Bandaríkjanna og Ástralíu.

Átta liða úrslitin í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna fóru fram í dag. Eins og vanalega beindust augu flestra að stjörnuliði Bandaríkjanna sem mætti Ástralíu. Bandaríska liðið vann öruggan sigur 116-85.

Kobe Bryant var stigahæstur í bandaríska liðinu með 25 stig en LeBron James kom næstur með 16 stig. Patrick Mills var með 20 stig fyrir Ástralíu.

Argentína verður mótherji Bandaríkjanna í undanúrslitunum en Argentína vann Grikkland 80-78 í spennandi leik í dag. Manu Ginobili skoraði 24 stig og Francisco Delfino 23 fyrir Argentínu en stigahæstur Grikkja var Antonios Fotsis með 17 stig.

Í hinum undanúrslitaleiknum munu eigast við Litháen og Spánn. Litháar unnu öruggan sigur á Kína í átta liða úrslitunum í dag 94-68. Sarunas Jasikevicius var stigahæstur Litháa með 23 stig. Hjá Kína var Yao Ming stigahæstur með 19 stig.

Spánverjar báru sigurorð af Króatíu í morgun 72-59. Pau Gasol var með 20 stig fyrir Spánverja en Marko Banic með 15 fyrir Króatíu.

Undanúrslitaleikirnir verða á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×