Viðskipti innlent

Þekking fjármálafólksins virkjuð

Fram­kvæmda­stjóri Microsoft á Íslandi segir mikilvægt að skapa frjóan vettvang fyrir það velmenntaða starfsfólk fjármálafyrirtækjanna sem er að missa vinnuna á næstunni.
Fram­kvæmda­stjóri Microsoft á Íslandi segir mikilvægt að skapa frjóan vettvang fyrir það velmenntaða starfsfólk fjármálafyrirtækjanna sem er að missa vinnuna á næstunni.

„Bankarnir tóku allt besta fólkið. Nú verðum við að virkja þá sem missa vinnuna og koma í veg fyrir að það fari úr landi,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Halldór segir marga óttast að stór hluti af velmenntuðu og frjóu starfsliði bankanna hverfi af landi brott eftir að bankageirinn var stokkaður upp í byrjun mánaðar. Margir horfa til Noregs.

Halldór og frumkvöðullinn Hjálmar Gíslason hafa hist reglulega ásamt öðrum, svo sem forsvarsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, eftir að bankarnir fóru í þrot til að finna leiðir og hámarka þau tækifæri sem bíði starfsfólks bankanna. Þá hafa þeir kortlagt sprotageirann, sem þurfi á hæfu starfsfólki að halda, til að finna farveg fyrir þá þekkingu úr bankageiranum sem nú er á lausu.

Ekki megi þó reikna með að sprotafyrirtækin geti tekið við öllum.

Fleiri hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar en Nýsköpunarmiðstöðin, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins gerðu í síðustu viku með sér samstarfssamning um leit og framboð á möguleikum til atvinnusköpunar fyrir félagsmenn fjármálafyrirtækja, svo sem farveg fyrir nýsköpun og frumkvöðlavinnu.

Halldór segir hættuna felast í því að fólk í fjármálageiranum verði látið vinna uppsagnarfrest sinn og fari svo á atvinnuleysisbætur. Nær sé að hvetja fólk til að ræða saman og þróa hugmyndir sem það lumi á og vera þátttakendur í jákvæðu uppbyggingarferli á sama tíma og bætur eru greiddar.

„Það er fullt af húsnæði laust og lítið mál að útvega skrifstofubúnað,“ segir Halldór.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×