Erlent

Bush býður McCain og Obama til fundar

Bush Bandaríkjaforseti segir efnhagskerfi Bandaríkjanna í hættu ef frumvarp um björgunaraðgerðir vegna fjármálafyrirtækja verði ekki samþykkt. Hann hefur boðið John McCain og Barack Obama, forsetaefnum repúblikana og demókrata, til fundar í Hvíta húsinu í dag til að ræða efnahagsþrengingarnar í Bandaríkjunum.

Bush Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í gær. Hann ræddi efnahagsþrengingarnar og rökin fyrir frumvarpinu. Forsetinn sagði að það yrði að samþykkja hið fyrsta til að koma í veg fyrir enn frekari útgjöld. Stórir geirar efnahagslífsins væru í hættu ef ekkert yrði að gert.

Bæði demókratar og repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa margt við frumvarpið að athuga og undrast hraðann og þrýsting Hvíta hússins að ná því í gegn.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins fær Henry Paulson fjármálaráðherra alræðisvald yfir sextíu og fimm þúsund milljarða króna sjóði en fé úr honum verður notað til að kaupa undirmálslán frá fjármálafyrirtækjum í kröggum. Demókratar vilja binda það í frumvarpið að aðgerðirnar lúti eftirliti þings. Ekki er gert ráð fyrir slíku í frumvarpinu.

Bush lagði áherslu á það í ávarpinu að hika væri sama og að tapa og það töluvert tap.

Ástand efnahagsmála hefur haft áhrif á baráttuna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember. John McCain, forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur ákveðið að gera hlé á kosningabaráttu sinni til að hann geti einbeitt sér betur að ástandi efnahagsmála. Hann vill fresta kappræðum við Barack Obama sem eiga að vera á morgun.

Það vill Obama ekki, hann telur mikilvægt að kjósendur heyri frá frambjóðendunum í efnahagsþrengingunum. Bush Bandaríkjaforseti hefur boðið McCain og Obama til fundar við sig í Hvíta húsinu síðar í dag til að ræða stöðu mála og einni frumvarpið umdeilda.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×