Viðskipti innlent

Jón Ásgeir segist vera með allt sitt undir í sölunni á Baugi

Jón Ásgeir Jóhannesson segir að hann sé með allt sitt undir í sölunni á Baugi Group í Bretlandi. Þetta kom fram í mjög aðgangshörðu viðtali Egils Helgasonar við Jón Ásgeir í Silfri Egils í dag.

Egill hóf viðtalið með því að ræða aðkomu Philip Green að kaupunum á Baugi í Bretlandi og spurði hvort það væri bara ekki enn einn snúningurinn á því að einn auðkýfingur væri að kaupa af öðrum.

Jón Ásgeir segir hvað þetta varðar að hann sé fyrst og fremst að vernda störf þeirra 55.000 Breta sem vinna í fyrirtækjum Baugs í Bretlandi. Green hafi haft samband við Baug að fyrrabragði þar sem hann hafði áhyggjur af því hvað myndi gerast ef félagið færi á hausinn.

Jón Ásgeir segir að ef slíkt gerist sé Baugur í Bretlandi verðlaus og því sé betra að selja eigurnar, þótt á brunaútsölu sé, en láta það gerast. Höfuðástæðan fyrir þessum vandræðum Baugs sé milliríkjadeila sú sem kom upp milli Breta og Íslendinga og olli því að Baugur missti allt lánstraust í Bretlandi.

Aðspurður um hvort hann hefði komið peningum undan segir Jón Ásgeir að svo sé ekki. "Ég er það allt mitt undir núna," segir Jón Ásgeir.

Þá kom fram í viðtalinu að ef allt fer á versta veg sé Jón Ásgeir tilbúinn til að vinna á lyftara hjá Baugi á Íslandi ef út í það væri farið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×