Handbolti

Meiðsli Óla þjappa hinum saman

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Sveinsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Sigurður Sveinsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
„Ég held að meiðsli Óla hljóti að þjappa mönnum enn betur saman fyrir leikinn gegn Slóvökum á morgun," sagði Sigurður Sveinsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Ísland tapaði eins og alkunna er fyrir Svíþjóð í gær, 24-19, eftir að hafa verið mest tíu mörkum undir í síðari hálfleik. Óhætt er að segja að strákarnir okkar hafi einfaldlega verið slegnir í rot.

„Mér fannst að sóknarleikurinn hafi einfaldlega frosið. Það var enginn sem tók af skarið og það var lítið skotið. Þeir hafa hreinlega verið svona yfirspenntir, greyin."

En aðalmál dagsins eru meiðsli Ólafs Stefánssonar sem verður ekki með gegn Slóvökum á morgun.

„Ég held að þetta hljóti að þjappa hinum leikmönnunum saman. Það er einu sinni þannig að Óli er búinn að halda þessu uppi í mörg ár. Núna þegar hann vantar verða hinir að taka af skarið og sýna og sanna að liðið snýst ekki bara um Óla. Það eru aðrir leikmenn í liðinu og eins og alltaf kemur maður í manns stað."

„Það er engu að síður alveg ljóst að strákarnir þurfa að ná alveg skínandi góðum leik ef þeir ætla að vinna Slóvakana. En það er enginn vafi á því að þeir leggja sig 150 prósent fram og ætla ekki að valda fyrirliðanum sínum vonbrigðum."

„Svo gæti líka verið spurning hvernig þessar fréttir fara í mótherjana. Þeir gætu allt í einu haldið að þetta verði eitthvað létt fyrst að besti maðurinn verður ekki með."

En því er ekki að neita að það eru færir handboltamenn sem geta leyst Ólaf af hólmi.

„Við erum ein af þessum fáum þjóðum sem eru með mikinn fjölda örvhentra skytta. Það sást til dæmis í leik Dana og Norðmanna í gær að hvorugt lið byrjaði með örvhenta skyttu á vellinum."

Hann býst ekki við því að leikmenn leggist í volæði eftir úrslit gærdagsins og meiðsli Ólafs.

„Nei, það er langt frá því. B-liðið okkar sannaði á Posten Cup að þeir gátu vel unnið hvaða lið sem er. Þeir voru til að mynda vel á veg komnir með að vinna Ungverja. Það var talað um það fyrir mótið að við erum með breiðan hóp og við verðum að geta tekið því ef einn úr hópnum meiðist. Því miður þurfti það að vera aðalmaðurinn í þetta sinn. En það mun vonandi efla hina leikmennina."

Sigurði fannst þó furðulegt að Alfreð væri ekki búinn að kalla annan leikmann til Noregs.

„Alfreð er ekkert búinn að hringja í mig. Ég bíð enn við símann."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×