Viðskipti erlent

Saks styrkir yfirtökuvarnir eftir að Slim eykur hlut sinn í 18%

Verslunarkeðjan Saks í Bandaríkjunum er nú að styrkja yfirtökuvarnir sínar eftir að mexíkanski auðmaðurinn Carlos Slim Helu jók hlut sinn í Saks upp í tæp 18%. Talið er að hann hyggist kaupa Saks en Baugur, sem á 8%, hafði hug á því sama fyrr í ár.

Eftir að fregnir bárust um áhuga Slim á Saks hækkuðu hlutabréf keðjunnar á markaðinum í Wall Street um 12,3% og fóru í 4 dollara. Rekstur Saks hefur hinsvegar verið erfiður í fjármálakreppunni eins og raunar hjá flestum öðrum verslunarkeðjum vestanhafs og austan.

Stjórn Saks er lítt hrifin af aðkomu Slim að keðjunni og ákvað því á fundi sínum í gærdag að undirbúa frekari varnir gegn yfirtöku Slim. Meðal annars var samþykkt að ef einhver hluthafi eignaðist 20% eða meir í keðjunni, án samþykkis stjórnarinnar, hefði stjórnin leyfi til útgáfu á jöfnunarhlutabréfum sem aðrir hluthafar gætu keypt með 50% afslætti frá skráðu verði á markaðinum.

Í frétt um málið á Reuters er fjallað aðeins um áhuga Baugs fyrr í ár á að yfirtaka Saks. Sagt er að það hafi á endanum strandað á fjármálakreppunni og hruni bankakerfisins á Íslandi.

Saks var stofnað árið 1919 og er einkum þekkt fyrir stórverslun sína við 5th Avenue í New York sem kölluð hefur verið flaggskip verslunarkeðjunnar.

Carlos Slim Helu er auðugasti maður Mexíkó en auðæfi hans byggja einkum á símafyrirtækinu Telmex sem rekur yfir 90% af öllu fastlínukerfi landsins. Þar fyrir utan á hann banka, verslanir, veitingahús og tóbaksframleiðslu svo eitthvað sé nefnt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×