Handbolti

Alfreð: Hreiðar gæti orðið okkar framtíðarmaður

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason.

Í dag kom Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, heim frá Danmörku. Hann mætti á æfingu hjá B-landsliðinu sem hefur verið að æfa undir stjórn Kristjáns Halldórssonar.

B-liðið er á leið til Noregs og mun leika í æfingamóti ásamt Ungverjalandi, Portúgal og heimamönnum. En eiga leikmenn B-liðsins góða möguleika á að komast í lokahópinn?

„Ég er búinn að velja þrettán menn í lokahópinn en svo ræðst það eftir Tékkaleikina og ferðina hjá B-liðinu til Noregs hverjir koma inn í viðbót," sagði Alfreð í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2.

A-landslið Íslands mætir Tékkum í tveimur leikjum á sunnudag og mánudag en þetta verður lokaverkefnið fyrir EM sem hefst fimmtudaginn 17. janúar með leik gegn Svíum. Alfreð hefur áhyggjur af varnarleik íslenska liðsins fyrir mótið.

„Við erum í vissum vandræðum eins og sást best í leiknum gegn Dönum í gær. Við fengum mikið af hraðaupphlaupum og jafnvel hraðri miðju í bakið á okkur. Það eru þó jákvæðir punktar, til dæmis var Ásgeir að leika vel á miðjunni þrátt fyrir að hafa fengið rauða spjaldið. Það var mjög ósanngjarn dómur að mínu mati."

Alfreð er ánægður með frammistöðu markvarðarins Hreiðars Guðmundssonar. „Ég var mjög ánægður með hann og þá sérstaklega í fyrri hálfleik gegn Danmörku. Hann er að sýna það að hann gæti orðið okkar framtíðarmaður," sagði Alfreð á Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×