Erlent

Lögregla með vakt við skóla sem hótað var í Finnlandi

Finnskir lögreglumenn á vettvangi fjöldamorðanna í Kauhajoki á þriðjudag.
Finnskir lögreglumenn á vettvangi fjöldamorðanna í Kauhajoki á þriðjudag. MYND/AP

Lögregla stendur nú vakt við skóla í bænum Esbo, nágrannabæ Helsinki, eftir að hótun barst um ofbeldi gagnvart nemendum skólans.

Fram kemur á fréttavef Huvudstadbladet að lögregla telji að ekki sé alvara á bak við hótunina en hún vill hafa vaðið fyrir neðan sig í ljósi þess að tíu manns voru myrtir í iðnskóla í bænum Kauhajoki fyrr í vikunni. Orðrómur um hótunina í Esbo fór að berast milli nemenda í gær og þegar hann barst til rektorsins frá áhyggjufullum foreldrum ákvað hann að hafa samband við lögreglu.

Nemendur mættu engu að síður í skólann í morgun og fór kennsla fram eins og venjulega. Um þúsund nemendur, allt frá leikskólabörnum til menntaskólanema, eru í skólanum í Evo. Fjölmargar hótanir hafa borist skólum í Finnlandi á síðustu dögum, flestar í gegnum Netið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×