Erlent

Dönsk spilavíti berjast í bökkum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Destination360.com

Dönsk spilavíti berjast í bökkum eftir að reykingabann tók gildi á þarlendum veitingahúsum í fyrra og hafa æ fleiri lagt upp laupana.

Fjöldi danskra íþróttafélaga fær stóran hluta rekstrarfjár síns frá starfsemi spilavítanna sem kallast á dönsku bankocenter og draga nafn sitt af því spili sem mestra vinsælda nýtur þar en þar er í raun um að ræða bingó í ýmsum mismunandi útfærslum sem Danir nefna einu nafni banko.

Önnur hefðbundin fjárhættuspil eru einnig í boði í spilahöllum þessum en nú er mjög tekið að halla undan fæti þar sem reykingamenn hafa fram að þessu verið ákaflega stór hluti spilaranna. Talsmenn spilasalanna játa þó að almennt vandræðaástand í fjármálum landsmanna geti haft sín áhrif en halda því einnig stíft fram að stærsti hluti viðskiptamannanna hafi horfið með reyknum. Þá hefur nokkrum spilasölum hefur verið legið á hálsi fyrir að leyfa reykingar á laun þrátt fyrir lagabókstafinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×