Innlent

Áframhald á lengsta farbanni Íslandssögunnar

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur staðfest þá ákvörðun héraðsdóms að fyrrverandi framkvæmdastjóri Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna skuli áfram sæta farbanni vegna rannsókna efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á meintum brotum hans. Skal hann sæta farbanni til 11. nóvember.

Framkvæmdastjórinn er grunaður um að hafa falsað bankaábyrgðir fyrir tugi milljarða króna en þar á meðal er ábyrgð upp á einar 200 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 18 milljarða króna. Sex ára fangelsi liggur við brotum mannsins, verði hann sakfelldur.

Maðurinn hefur sætt farbanni frá því í apríl í fyrra og fram kom í Fréttblaðinu á dögunum fullvíst þyki að enginn Íslendingur hafi áður setið jafnlengi í farbanni.

Einn dómari í málinu, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurð um farbann úr gildi. Benti hann á að maðurinn hefði þegar sætt farbanni í 17 mánuði og að þeir yrðu orðnir nær 19 við lok þess tíma sem nú var ákveðinn.

„Jafnframt liggur fyrir samkvæmt fyrrnefndum upplýsingum sóknaraðila að líklegast verði nauðsynlegt að óska enn framlengingar farbannsins að þessum tíma liðnum, án þess að nokkur vissa sé um hvaða tími sé talinn munu duga til að þjóna markmiði sóknaraðila. Við svo búið getur ekki staðið og tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi," segir í sératkvæðinu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×