Innlent

Um 250 tilkynningar um grun um líkamlegt ofbeldi gegn börnum

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Stefán

Rúmlega 250 tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur vegna gruns um líkamlegt ofbeldi gegn börnum á síðasta ári og 165 tilkynningar bárust um kynferðislegt ofbeldi. Þetta kemur fram ársskýrslu Velferðarssviðs Reykjavíkurborgar en undir það heyrir barnavernd.

Barnaverndarnefnd borgarinnnar ber að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði meðal annars með því að veita fjölskyldum stuðning og beita úrræðum til verndar börnum þegar það á við.

Í tölum velferðarsviðs segir enn fremur að árið 2007 hafði Barnavernd Reykjavíkur rúmlega 2.380 mál til meðferðar vegna barna og unglinga en það er um 50 málum fleira en árið á undan. Af þeim voru 130 mál lögð fyrir barnaverndarnefnd í fyrra en þau reyndust 168 árið 2006.

Tilkynningum vegna barna til Barnaverndar er skipt í flokka eftir eðli þeirra. Alls bárust um 1750 tilkynningar um áhættuhegðun barna og unglinga í fyrra, en stærstur hluti þeirra varðaði unglinga á aldrinum 13-18 ára.

Þá voru tilkynningar um grun um ofbeldi gagnvart börnum rúmlega 760 á sama tíma, en um 460 þeirra voru vegna barna yngri en tólf ára og um 300 vegna ofbeldis gagnvart unglingum. Sem fyrr segir voru 165 tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum undir 18 ára aldri, 250 um líkamlegt ofbeldi og um 350 um tilfinningalegt eða sálrænt ofbeldi.

Þá voru yfir 1200 tilkynningar vegna gruns um líkamlegrar vanrækslu barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×