Viðskipti erlent

Flugfélög rukkuð um kaup á eldsneyti fyrirfram í reiðufé

Enn aukast hremmingar flugfélaga í heiminum. Ofan á hátt eldsneytisverð bætist nú við að olíufélögin eru farin að krefjast þess að fá greitt fyrirfram í reiðufé fyrir eldsneytiskaup flugfélaganna.

Fjallað er um málið á vefsíðu breska blaðsins The Times. Þar segir að þessir viðskiptahættir, það er fyrirframgreiðsla í reiðufé fyrir eldsneyti, séu orðnir algengir í Bandaríkjunum. Og farið sé að örla á þessu hvað flugfélög varðar í Evrópu og Asíu.

Samkvæmt upplýsingum frá John Armbrust sérfræðingi í eldsneytiskaupum flugfélaga í Bandaríkjunum hefur verið algengt hingað til að olíufélögn láni flugfélögum fyrir eldsneytiskaupum þeirra í 14 til 30 daga. Nú séu fyrirframgreiðslur dagskipunin og á slíku hafi flugfélögin hreinlega ekki ráð eins og staðan er á markaðinum.

Verð á eldsneyti fyrir flugvélar hefur hækkað um 60% frá áramótum. Flugfélögin hafa reynt að mæta þessu með ýmsum hætti, aukagjöldum á ferþega, niðurfellingu á flugleiðum og fleiru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×