Viðskipti erlent

Greining Glitnis dregur aðeins úr verðbólguspá sinni

Eftir endurskoðun á verðbólguspá sinni fyrir nóvember telur greining Glitnis að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 2,1% í mánuðinum, en upphaflega spáin hljóðaði upp á 2,3% hækkun VNV. Verðbólga undanfarinna 12 mánaða mun samkvæmt þessu mælast 17,5%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að eftir sem áður telur greiningin að hækkun VNV nú verði fyrst og fremst drifin af verulegri verðhækkun á mat og drykk, fatnaði og húsbúnaði, en allir þessir liðir eru mjög háðir gengisþróun krónu.

Á móti vegur að eldsneytisverð lækkaði talsvert í mánuðinum, og raunar öllu meira en greiningin hafði gert ráð fyrir. Einnig virðist sem ný aðferð Hagstofu við verðmælingar á bifreiðakaupum muni leiða til þess að verðhækkun í bifreiðum mælist minni en ella. Húsnæðisliður vísitölunnar mun auk þess lækka lítillega að öllum líkindum.



Gengisþróun krónu verður ráðandi þáttur í verðlagsþróun á komandi mánuðum og misserum. Aðrir helstu áhrifavaldar verðbólgu, s.s. launaþróun, húsnæðisverð og hrávöruverð erlendis, munu ýmist draga úr verðbólgu eða a.m.k. ekki drífa hana áfram.

Enn á eftir að koma fram töluverður hluti áhrifa af hrapi krónunnar á haustmánuðum, auk þess sem frekari veiking hennar til skamms tíma er ekki útilokuð. Því mun neysluverðlag hækka talsvert á allra næstu mánuðum og verðbólga ná hámarki í upphafi næsta árs að mati greiningarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×