Viðskipti innlent

Seðlabanki svarar ekki fullyrðingum Björgólfs Thors

Engin svör fást í Seðlabankanum við fullyrðingum Björgólfs Thors Björgólfssonar um að bankinn hefði getað afstýrt óvissunni með Icesavereikninganna og milliríkjadeilunni sem hún hefur skapað.

Fréttastofa hefur í dag leitað viðbragða bankastjóra Seðlabanka Íslands við því sem kom fram í útdrætti úr viðtali Kompáss við Björgólf Thor Björgólfsson sem sýnt var í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar sagði Björgólfur að Seðlabankinn hefði getað afstýrt óvisunni sem ríkir um Icesave reikningana í Bretlandi og milliríkjadeilunni sem upp er komin vegna þeirra. Hann segir að bresk yfirvöld hafi boðist til að taka yfir alla Icesave reikninga degi áður en neyðarlög voru sett gegn því að landsbankinn greiddi 200 milljón punda tryggingu.

Með því hefðu ábyrgðir vegna innistæðna reikninganna fallið á breska ríkið en ekki það íslenska. Bankinn bað því Seðlabankann um lán fyrir þessari tryggingu svo af þessu gætu orðið. Að sögn Björgólfs voru bestu mögulegu veð lögð fram fyrir þessu láni.

Seðlabankinn hafnaði hins vegar beiðninni og deilan um Icesave reikningana hefur síðan þá orðið að harðri milliríkjadeilu á milli Breta og Íslendinga.

Í Seðlabankanum í dag fengust þau svör að enginn þriggja seðlabankastjóranna væri til viðtals vegna málsins. Hefðin væri sú að tjá sig ekki um viðskipti eða samninga af þessu tagi.

Ítarlegt viðtal verður við Björgólf Thor Björgófsson í fréttaskýringaþættinum Kompási á Stöð 2 í kvöld. Þátturinn er í opinni dagskrá.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×