Viðskipti innlent

Pálmi tjáir sig ekki um milljarðana þrjá frá FL

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson

Sumarið 2005 lét Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL, flytja án heimildar þrjá milljarða króna af reikningum FL til Kaupþings í Lúxemborg, til þess að hjálpa Pálma Haraldssyni við að greiða fyrir kaupin á lággjaldaflugfélaginu Sterling í Danmörku. Þetta kemur fram í grein Agnesar Bragadóttur blaðamanns í Morgunblaðinu í dag.

Þegar upp komst um gjörninginn varð allt vitlaust í FL, skrifar Agnes. Endurskoðendur neituðu að skrifa upp á sex mánaða uppgjörið, nema þessu yrði kippt í liðinn, stjórn og forstjóri urðu sömuleiðis vitlaus og sökuðu Hannes um að hafa þverbrotið lög með þessum fjármagnsflutningum almenningshlutafélags, án þess að hafa til þess nokkra heimild. Kaupþing í Reykjavík reddaði málum og flutti aftur þrjá milljarða yfir til FL og endurskoðendur skrifuðu því hamingjusamir undir »endurskoðað« sex mánaða uppgjör.

Enn fremur hefur Agnes heimildir fyrir því að stjórn og forstjóri FL hafi enn verið bullandi óhamingjusöm með hátterni Hannesar stjórnarformanns og stjórnin sagði af sér, fyrst þrír stjórnarmenn, síðan aðrir þrír og loks ákvað Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri að hætta, með 120 milljóna króna starfslokasamning í vasanum, eftir afar stuttan stans á forstjórastól. Ragnhildur hefur aldrei upplýst hvað gerðist og telur Agnes að hún hafi ugglaust lofað að þegja, gegn 120 milljóna króna plástrinum.

Í samtali við Vísi nú í hádeginu vildi Pálmi Haraldsson ekkert tjá sig um málið. Ekki náðist í Hannes Smárason.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×