Erlent

Rúmlega 52 milljónir fylgdust með kappræðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Talið er að rúmlega 52 milljónir manna hafi horft á kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum fyrir helgina.

Þetta er mat fyrirtækisins Nielsen Media Research sem þó segir áhorfið tiltölulega dræmt en 80 milljónir horfðu Reagan og Carter árið 1980 og stendur það met enn. Fyrstu sjónvarpskappræður forsetaefna í Bandaríkjunum fóru fram árið 1960 þegar John F. Kennedy og Richard Nixon öttu kappi.

Sjónvarpsáhorfendum þótti Kennedy bera af en það sama var ekki að segja um þá sem hlustuðu á kappræðurnar í útvarpi, þar þótti Nixon betri enda mikill ræðuskörungur. Kennedy-fjölskyldan lagði allt kapp og fjármagn í kosningabaráttuna og var því lekið í aðstoðarmenn Nixons að bakgrunnurinn í sjónvarpsverinu yrði ljósleitur.

Nixon gætti þess því að mæta dökkklæddur en þarna var um herbragð að ræða og bakgrunnurinn dökkur. Nixon hvarf því nánast og sáu áhorfendur ekkert nema kófsveitt andlit. Þetta atvik hefur hugsanlega riðið baggamuninn í kosningunum en munurinn á frambjóðendunum varð vel innan við eitt prósent og hefði ekki getað orðið minni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×