Innlent

Fimmtán hundruð sagt upp á árinu í hópuppsögnum

Um 1500 manns hefur verið sagt upp á árinu í hópuppsögnum samkvæmt samantekt Vinnumálastofnunar.

Fram kemur á vef stofnunarinnar í hverjum mánuði hafi borist allt að fjórar tilkynningar um hópuppsagnir, engin í mars en fjórar í maí og september. Í flestum tilvikum eru fyrirtæki að segja upp fáum tugum starfsmanna en í einstaka tilvikum hafa uppsagnir farið yfir hundrað.

Sveilfurnar séu miklar en á heildina litið fjölgar þeim sem sagt er upp með hópuppsögnum eftir því sem líður á árið. Í september bárust fjórar tilkynningar um hópuppsagnir og voru þær allar í byggingargeiranum. Alls var 113 starfsmönnum sagt upp sem er um fjórðungur starfsmanna fyrirtækjanna fjögurra.

Uppsagnirnar koma til framkvæmda á fimm mánaða tímabili. Fyrstu uppsagnirnar koma til framkvæmda í lok októbermánaðar en þær síðustu í lok febrúar 2009. Flestar uppsagnirnar koma þó til framkvæmda fyrir árslok 2008.

Það sem af er ári hafa flestar fjöldauppsagnir verið í byggingariðnaði, eða yfir 40 prósent uppsagna, um 20 prósent uppsagna eru í flugrekstri, milli 15 og 20 prósent í ýmiss konar þjónustustarfsemi, svipað hlutfall í verslunarstarfsemi og 6 prósent í sjávarútvegi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×