Handbolti

Noregur vann Danmörk - Ungverjar skelltu Spánverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristian Kjelling, leikmaður Noregs.
Kristian Kjelling, leikmaður Noregs. Nordic Photos / AFP

Norðmenn gáfu tóninn með sigri á Dönum í stærsta leik dagsins á fyrsta keppnisdegi EM.

Noregur vann eins marks sigur, 27-26, eftir að hafa verið með fjögurra marka forystu í hálfleik.

Danir fengu síðustu sókn leiksins en hún rann út í sandinn og því fögnuðu heimamenn gríðarlega góðum sigri.

Håvard Tvedten var markahæstur Norðmanna með átta mörk, þar af sex úr vítum. Frode Hagen skoraði sex mörk í leiknum og Steinar Ege varði fjórtán skot í norska markinu.

Hjá Dönum var Lasse Boesen markahæstur með níu mörk en Michael Knudsen skoraði fimm mörk. Kasper Hvidt varði tólf skot í leiknum.

En óvæntustu úrslit dagsins komu úr leik Spánar og Ungverjalands þar sem síðarnefnda liðið fór með sjö marka sigur af hólmi, 35-28.

Ungverjar voru með tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×