Viðskipti innlent

Hluthafarnir fengu sitt … en ekki í peningum

Boltinn byrjaður Leikmenn HK og FH eigast við. Rekstrarfélög voru stofnuð um meistaraflokka nokkurra liða. Þau eru enn starfandi. Sum liggja raunar í dvala en önnur þurfa að gera breytingar á sínum högum vegna nýrra reglna UEFA. Markaðurinn/Vilhelm
Boltinn byrjaður Leikmenn HK og FH eigast við. Rekstrarfélög voru stofnuð um meistaraflokka nokkurra liða. Þau eru enn starfandi. Sum liggja raunar í dvala en önnur þurfa að gera breytingar á sínum högum vegna nýrra reglna UEFA. Markaðurinn/Vilhelm
Boltinn rúllaði af stað núna um helgina en þá var leikin fyrsta umferðin í efstu deild meistaraflokks karla. Fjölmargir, jafnvel flestir ef ekki allir sem þar leika, þiggja laun frá félögunum fyrir að spila knattspyrnu. Nokkur rekstrarfélög
Fótboltastóllinn

Þessi atvinnumennska hefur verið við lýði í þó nokkur ár, en fyrir um áratug tóku að spretta upp ýmis félög þar sem hugmyndin var meðal annars að nýta hlutafélagaformið til að styrkja rekstur og safna fé til að reka félögin. Kostnaður við rekstur meistaraflokkanna skiptir tugum milljóna króna á ári.

En hvernig standa þessi mál nú?

„Við stofnuðum þetta félag, GK '99, upphaflega utan um reksturinn á knattspyrnunni, en ekki mannvirkin, en síðan breyttist þetta snögglega," segir Jónas Þórhallsson, fyrrverandi formaður Ungmennafélags Grindavíkur.

Félag utan um rekstur íþróttafélags, öllu heldur knattspyrnudeild í efstu flokkum karla, var stofnað í Grindavík um síðustu aldamót. Þá var þetta nokkur tíska, sem fyrr segir. Stofnuð voru félög vegna KR, Fram, Vals, Keflavíkur og Hattar á Egilsstöðum.

Þetta fyrirkomulag virðist í einhverjum tilvikum hafa skilað árangri, enda þótt markmiðin hafi í sumum tilvikum breyst eftir því sem liðið hefur á.

Nýjar reglur
fótbolti stakur

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur sett nýjar reglur sem hafa í för með sér að hluta­félag sem séð hefur um rekstur íþróttafélags eða knattspyrnudeildar, þarf að vera í meirihlutaeigu íþróttafélagsins sjálfs.

Þessi nýja regla var sett inn í lög Knattspyrnusambands Íslands í febrúar í fyrra, en mun taka gildi um næstu áramót.

Eina félagið sem raunverulega þarf að gera breytingar vegna nýrra reglna er rekstrarfélag KR, KR-Sport.

Ágætu hluthafar

Um 1.100 hluthafar eru í rekstrarfélaginu KR-Sport. Fram kemur í skýrslu stjórnar fyrir síðasta ár, en aðalfundur var haldinn snemma í vor, að á þeim áratug sem félagið hafi séð um rekstur meistaraflokks KR, hafi mikill árangur náðst. Félagið hafi fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

„Þessi árangur og regluleg þátttaka í Evrópukeppni sýnir hversu mikilvægt það var á sínum tíma að skipta upp rekstrinum og halda sérstaklega vel utan um þennan hluta rekstrarins. Hluthafar hafa því fengið töluvert fyrir það fjármagn sem þeir settu í félagið þó ekki hafi komið til sérstakra arðgreiðslna í formi peninga," segir Jónas Kristinsson, stjórnarformaður KR-Sport, í skýrslunni.

Önnur markmið

Jónas Þórhallsson í Grindavík sagði hér í upphafi, að félag utan um meistaraflokk karla hefði upphaflega verið stofnað um reksturinn. Fyrir­myndin að félaginu hafi verið KR-Sport og var tekið ríkt mið af lögum og samþykktum KR-Sport. „Það var meira að segja svo að KR-ingarnir kynntu sérstaklega fyrir okkur sitt fyrirkomulag," segir Jónas.

Hlutir í félaginu fyrir níutíu milljónir króna voru boðnir út. Grindavíkurbær og Útgerðar­félag Grindavíkur voru stærstir hluthafar.

Í upphafi keypti félagið GK '99 þrjá leikmenn til Grindavíkur, en síðan ekki söguna meir. Allt fé félagsins fór til þess að reisa íþróttamannvirki í Grindavík. „Bærinn dró sig eiginlega út úr þeim framkvæmdum, það var ekki samkomulag í pólitíkinni um hvernig skyldi gera þetta og við hlupum undir bagga og stóðum mest­megnis straum af kostnaðinum við stúkuna," segir Jónas. Félagið sé nú skuldlaust.

Hann segir að félagið sé enn til, en segja megi að það liggi í dvala.

Til aðstoðar

Rúnar Arnarson, sem tekur þátt í rekstri félagsins K-fjárfesting í Keflavík, segir að það eigi ekki beinan þátt í rekstri knattspyrnudeildarinnar þar, hún sjái sjálf um eigin rekstur.

„Við söfnuðum hlutafé til að sinna afmörkuðum verkefnum. Við höfum styrkt keppnisferðir og hjálpað til við að fjármagna leikmannakaup. Þetta er ekki stór rekstur og það fer ekki mikið fyrir honum. Við leggjum til fé til leikmannakaupa en síðan fáum við til baka ákveðið hlutfall af því sem félagið fær fyrir selda leikmenn," segir Rúnar, sem bætir því við að K-fjárfesting taki ekki þátt í launakostnaði leikmanna.

Fóru geyst af stað

Knattspyrnufélagið Fram hefur frá upphafi átt meirihluta í rekstrarfélaginu Fram, Fótbolta­félagi Reykjavíkur. Nýjar reglur um eignarhald hafa því ekki áhrif þar.

Brynjar Jóhannesson framkvæmdastjóri segir að reksturinn hafi gengið ágætlega síðustu ár, en í upphafi hafi hann gengið brösuglega, enda hafi verið tekið við erfiðu og skuldsettu búi. „Menn fóru nokkuð geyst af stað," segir hann.

Hann segir að félagið sjái alfarið um rekstur meistaraflokksins og annars flokks, og að þrátt fyrir að um hlutafélag sé að ræða, sé litið á félagið sem deild í Fram.

Hluthafar í félaginu séu vel á annað hundrað.

„Hingað til hafa engar arðgreiðslur verið. Það var reyndar ekki hugsað þannig í upphafi, heldur frekar að menn styrktu sitt félag, en kannski verður eitthvað í framtíðinni," segir Brynjar.

Hann segir félagið hafa tekjur sínar einkum af styrkjum fyrirtækja, en síðan komi eitthvað inn í aðgangseyri á völlinn.

Stór hluti rekstrarins eru leikmannakaup og launagreiðslur. „Ætli við höfum ekki verið með ríflega sjötíu milljónir í gjöld samkvæmt rekstrar­reikningnum í fyrra," segir Brynjar.

Í upphafi voru boðnir hlutir í félaginu fyrir þrjátíu milljónir króna.

Rekstrarfélagið er ekki aðili að nýlegum samningum við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á nýju félagssvæði við Úlfarsfell.

KR reið á vaðið

KR-Sport var stofnað um miðjan mars árið 1998. Hugmyndin var upphaflega að félagið ræki meistaraflokk karla í knattspyrnu og annan flokk karla.

Þá um haustið var ákveðið að breyta félaginu úr einkahlutafélagi í eigu Knattspyrnudeildar KR, í hlutafélag.

Haldið var almennt hlutafjárútboð þar sem boðið var hlutafé fyrir fjörutíu og sex milljónir króna. Allt hlutaféð seldist og hluthafar skipta nú hundruðum.

Fram kemur í skýrslu stjórnar fyrir síðasta ár að rekstur félagsins hafi undanfarin ár verið í „þokkalegu jafnvægi". Hins vegar hafi orðið fimmtán milljóna króna tap á rekstrinum í fyrra. Það skýrist meðal annars af þjálfaraskiptum sem ekki var gert ráð fyrir.

Tekjur KR-Sport eru styrkir og auglýsingasala, sala aðgöngumiða á völlinn, sjónvarpstekjur og tekjur vegna KR klúbbsins, stuðningsmanna­félags KR.

Nú stendur til að breyta fyrirkomulagi félagsins vegna nýrra reglna UEFA. Málið var á dagskrá síðasta aðalfundar KR-Sports.

Það sem að gerist hjá okkur er að rekstrinum verður skilað til knattspyrnudeildar félagsins," segir Jónas Kristinsson, stjórnarformaður KR-Sport. Hins vegar verði hlutafélagið áfram til og haldi áfram að styrkja knattspyrnustarfið hjá KR eftir því sem nokkur kostur verði.

Leikmenn KR hafa verið með samninga við KR-Sport. Jónas segir að uppgjör verði vegna þessara mála. „Félagið fær þessa samninga við sanngjörnu verði."

Valsmenn í byggingum

„Við styrkjum félagið sem síðan sér um að ráðstafa fénu, en við komum ekki með neinum hætti að rekstri," segir Brynjar Harðarson, stjórnarformaður Valsmanna hf.

„Félagið er almenningshlutafélag þar sem hluthafar eru á fimmta hundrað. Félagið var stofnað árið 1999 og safnaði ríflega fjörutíu milljónum króna í hlutafé.

Stofninn af þessu fé er enn til og hefur verið ávaxtað," segir Brynjar.

Félagið er ekki rekstrarfélag í sama skilningi og KR-Sport, heldur hefur það fyrst og fremst unnið að mannvirkjum í tengslum við félagssvæði Vals að Hlíðarenda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×