Viðskipti innlent

Danske Bank og Nordea loka fyrir millifærslur til Íslands

Tveir stærstu bankar Danmerkur, Danske Bank og Nordea Bank, hafa tekið fyrir allar peningamillifærslur á milli Íslands og Danmerkur, hvort sem þær varða einstaklinga, fyrirtæki eða sjóði.

Þá hafa verið erfiðleikar með að kortafærslur um danska kortafyrirtækið PBS komist til skila, en fjölmargar verslanir hér á landi eru í viðskiptum við það fyrirtæki.

Frásögnum um erfiðleika og vandræði vegna þessa rignir yfir fréttastofuna. Kona, sem rekur verslun með PBS posa, hefur ekkert fengið greitt af vaxandi innistæðu sinni dögum saman. Fyrir bragðið er hún komin í vanskil með lán, sem nú er farið að safna á sig dráttarvöxtum, og svo á hún ekki lengur fyrir nýjum vörum.

Eigandi útflutningsfyrirtækis fær ekki greitt fyrir framleiðslu sína, sem komin er til Danmerkur og kaupendur hafa reynt að greiða fyrir, en fá greiðsluna alltaf endursenda, með þeim orðum að bankarnir færi enga peninga til eða frá Íslandi hvers eðlis greiðslurnar eru. Íslenskur öryrki, sem staddur er í Danmörku, fær ekki örorkubæturnar yfirfærðar og er kominn í standandi vandræði, og svona mætti lengi telja.

Einn viðmælandi sagði fréttastofunni að bankarnir bæru því við að kennitölur bankanna væru óljósar á Íslandi og það vantaði ábyrgðaryfirlýsingu frá Seðlabankanum til að óhætt væri að opna fyrir millifærslur, en slík yfirlýsing Seðlabankans léti á sér standa.

Aðeins er tveir dagar frá því að Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi að borið hefði á hnökrum á erlendum viðskiptum íslenskra fyrirtækja. Seðlabankanum hefði verið falið að gera ráðstafanir að öll viðskipti gætu farið fram með eðlilegum hætti. Gengið yrði frá ábyrgðaryfirlýsingum til viðbótar yfirlýsingum viðskiptabanka. Seðlabankinn hefði jafnframt og myndi tryggja að strax eftir helgi yrðu öll venjuleg bankaviðskipti milli landa komin í eðlilegt horf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×