Erlent

Hraðlest í stað innanlandsflugs í Bretlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Breski Íhaldsflokkurinn íhugar nú að hætta við lagningu þriðju flugbrautarinnar á Heathrow-flugvelli og taka í staðinn upp lestarferðir milli London og Leeds.

Theresa Villiers, skuggaráðherra í samgönguráðuneytinu, sagði að það væri ætlun Íhaldsflokksins að draga úr flugumferð um Heathrow-flugvöll sem nemur rúmlega 66.000 flugferðum á ári. Í stað þess að leggja nýja flugbraut, eins og ráðgert hafði verið, er stefnan tekin á að leggja járnbraut sem ferja myndi hraðlest frá St. Pancras í London til Birmingham, Manchester og Leeds.

Ætlunin með þessu er að fá fólk til að nota lestina frekar en innanlandsflug. Þetta hefði í för með sér ýmsa kosti, væri til dæmis umhverfisvænt og gerði ferðalöngum kleift að komast á tiltölulega einfaldan hátt til ýmissa staða í nágrenni við áfangastaðina og má þar nefna ýmsa smábæi á vesturströnd Bretlands. Skuggaráðherrann kallar ákvörðunina græna aðgerð enda myndi mun minni losun gróðurhúsalofttegunda fylgja hraðlestinni en flugsamgöngum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×