Erlent

Múslimar kveðja Ramadan

Óli Tynes skrifar
Frá Mekka í gærkvöldi.
Frá Mekka í gærkvöldi. MYND/AP

Milljónir pílagríma halda nú hátíðlega síðustu vikuna í hinum helga mánuði Ramadan. Eitt æðsta takmark múslima er að komast að minnsta kosti einusinni til hinnar helgu borgar Mekka þar sem spámaðurinn Múhameð fæddist árið 570.

Í Mekka er svarti steinninn svokallaði sem múslimar trúa að rekja megi aftur til Adams og Evu. Hann er um 30 sentimetrar í þvermál. Hann er umlukinn silfurramma.

Múslimar reyna oft að kyssa steininn eins og Múhameð gerði eitt sinn. Vegna mannfjöldans komast þó fáir að honum. Raunar kemst aðeins lítill hluti pílagrímanna inn í hallargarðinn þar sem steinninn er geymdur.

Pílagrímarnir ganga í hring í garðinum, eða fyrir utan hallarhliðið og eiga að benda á steininn þegar þeir ganga framhjá honum, hvort sem það er innan eða utan múranna.

Ekki er vitað hvort svarti steinninn hefur einhverntíma verið vísindalega rannsakaður, en hann er almennt talinn vera leifarnar af loftsteini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×