Sport

Andy Murray óvænt úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Murray féll óvænt úr leik í Peking í dag.
Andy Murray féll óvænt úr leik í Peking í dag. Nordic Photos / AFP

Breski tenniskappinn Andy Murray féll óvænt úr leik í einliðaleik karla í tennis á Ólympíuleikunum í Peking í dag.

Murray er í sjötta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins en tapaði fyrir Lu Yen-Hsun frá Taivan sem er í 77. sæti listans, 7-6 og 6-4.

Murray átti góða möguleika á að taka fyrsta settið en fór illa að ráði sínu og tapaði í bráðabana. Lu sýndi hins vegar mjög stöðuga spilamennsku og fagnaði í lokin sætum sigri.

Murray hefur þó ekki lokið keppni þar sem hann keppir með bróður sínum, Jamie, í tvíliðaleik karla.

64-manna úrslitunum í einliðaleik karla er nú lokið og var lítið um óvænt úrslit. Spánverjinn David Ferrer tapaði reyndar óvænt fyrir Janko Tipsarevic frá Serbíu.

32-manna úrslitin í bæði karla- og kvennaflokki fara fram á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×