Viðskipti erlent

Rekstur Nokia undir væntingum

Nokia.
Nokia. Mynd/ AFP.

Uppgjör Nokia sem birt var í morgun var aðeins undir spám markaðsaðila einkum vegna einskiptiskostnaðar tengdum eftirlaunaskuldbindingum og lokunar á verksmiðjum. Velta félagsins á fjórðungnum nam 12,6 milljörðum evra samanborið við 12,7 milljarða meðalspá greiningaraðila. Þetta kemur fram í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.

Bréf í félaginu hafa lækkað um 27% frá ársbyrjun

„Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 1,5 milljörðum evra samanborið við meðalspá greiningaraðila um 1,6 milljarða. Ef hins vegar leiðrétt er fyrir einskiptiskostnaði vegna eftirlaunaskuldbindinga og flutnings á verksmiðju frá Þýskalandi til Rúmeníu þá var EBIT-hagnaður félagsins yfir væntingum eða um 1,984 millörðum evra samanborið við meðalspá greiningaraðila um 1,938 milljarða evra. Bréf félagsins lækkuðu um 10% í finnsku kauphöllinni í dag og nemur lækkunin um 27% frá ársbyrjun. Nokia er stærsta fyrirtæki Finnlands og lækkaði markaðsverðmæti félagsins um 960 milljarða króna í dag," segir Greining Kaupþings.

Markaðshlutdeild undir væntingum

Markaðshlutdeild Nokia á fyrsta ársfjórðungi mældist lægri en markaðurinn hafði væntingar til, að sögn Greiningar Kaupþings. Þar kemur fram að félagið mælist með 39% markaðshlutdeild nú samanborið við væntingar markaðarins um 40% markaðshlutdeild á heimsvísu. Hins vegar ef litið sé til sama tíma í fyrra þá hafi markaðshlutdeild Nokia aukist umtalsvert en í fyrra hafi hún verið um 36%. Þessari markaðshlutdeild hafi félagið einkum náð með aukinni sölu á ódýrari farsímum en meðaltekjur af seldu símtæki lækkuðu verulega eða úr 83 evrum á símtæki á fjórða ársfjórðungi niður í 79 evrur á símtæki. Hluti skýringarinnar sé veiking dollars gagnvart evru






Fleiri fréttir

Sjá meira


×