Innlent

Geir: Allar gáttir opnar hjá íslenskum stjórnvöldum

MYND/vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi allar gáttir opnar til þess að styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins í því umróti sem nú er. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, fagnaði því að gengið hefði verið fest en hvatti jafnframt stjórnvöld til þess að lækka stýrivexti hratt til þess að bjarga enn frekar hag heimilanna. Þá sagðist hann fagna því að víðsýni manna væri að aukast. „Bush hefur ekki reynst okkur neinn vinur," sagði Guðni og benti á að menn horfðu nú til Pútíns. Vonaði hann að lán Rússa til íslenskra stjórnvalda yrði að veruleika á hagstæðum kjörum og benti á að yfirlýsing stjórnvalda hefði þegar haft áhrif. Norðmenn og Svíar hefðu nú sagt að ekki væri hægt að láta Íslendinga þjást og boðið fram aðstoð. Guðni spurði því forsætisráðherra hvort ekki væru allar dyr enn opnar.

Geir H. Haarde svaraði því til að það kynni að vera tilefni til að senda Pútín skeyti því hann ætti nefnilega afmæli í dag. Uppskar hann við þetta hlátrasköll á þingi. Bætti hann því við að auðvitað hefðu íslensk stjórnvöld allar gáttir opnar til að styrkja gjaldeyrisforðann. Þau hefðu því miður komið víða að luktum dyrum og því hefði hann beitt sér fyrir viðræðum við Rússa. Unnið yrði að láninu frá Rússum á næstunni og fjármagnið yrði notað til að styrkja gjaldeyrisforðann og byggja upp viðbúnaðinn en ekki endurlána til Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×