Viðskipti innlent

Verðmyndun byggð á tveimur prósentum

Þorsteinn Hilmarsson. Líkleg stærð heildsölumarkaðar milli eitt og tvö prósent af heildarframleiðslunni.
Þorsteinn Hilmarsson. Líkleg stærð heildsölumarkaðar milli eitt og tvö prósent af heildarframleiðslunni.

„Það er óvíst að þetta nái flugi ef þetta verða bara innbyrðis kaup milli heildsala,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Landsnet stefnir að því að í haust hefjist heildsölumarkaður með raforku. Þetta er gert að norrænni fyrirmynd og gengur þannig fyrir sig að gerð eru kaup- og sölutilboð í raforku, jafnvel á tveggja klukkustunda fresti, allan sólarhringinn. Fyrir­komulagið yrði í sjálfu sér ekki ólíkt verðbréfamarkaði, þar sem stöðug verðmyndun á sér stað.

Þorsteinn Hilmarsson segir hugmyndina góða. „Mér líst mjög vel á þetta ef stórir notendur verða virkir á markaðnum.“ Þar vísar Þorsteinn til fyrir­tækja eins og Eimskips, Samskipa og Baugs. „Það yrði verra ef þetta yrðu bara innbyrðis viðskipti milli heildsala.“

Um 12.000 gígavattstundir voru framleiddar af raforku hérlendis í fyrra. Mikið af því er bundið í langtímasamninga, meðal annars við stóriðju. Þrír fjórðu framleiðslunnar fara til stóriðju, en fjórðungur á almennan raforkumarkað.

„Hugmyndin með heildsölumarkaðnum er ekki síst að fá verðmiða á orku í landinu,“ segir Guðmundur Ingi Árnason, aðstoðarforstjóri Landsnets.

Þorsteinn Hilmarsson telur að líkleg stærð á heildsölumarkaði yrði á bilinu 100 til 200 gígavattstundir á ári.

Sé miðað við heildarframleiðslu raforku hér á landi yrði opinbert verð á heildsölumarkaðnum því byggt á einu til tveimur prósentum af framleiðslunni. - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×