Viðskipti innlent

Kúabúin á hausinn?

Landssamband kúabænda vonast eftir hækkun á mjólkur­verðinu.
Landssamband kúabænda vonast eftir hækkun á mjólkur­verðinu.

„Ekki er fyrirsjáanlegt að mörg kúabú verði rekstrarhæf miðað við núverandi mjólkurverð,“ segir Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda. „Þetta er því miður staðreyndin.“

Hann segir bændur uggandi yfir stöðunni og þeir spyrji hvenær þeir fái leiðréttingar á mjólkurverði til sín, vegna hækkana á kostnaði við framleiðsluna. „Þær eiga sér sennilega ekkert fordæmi.“

Um 700 kúabú eru í landinu.

Þórólfur segir stöðuna nú óvenjulega að því leyti að bæði fjármagnskostnaður og almennur rekstrarkostnaður búanna hafi hækkað óheyrilega. Hann nefnir þar sérstaklega kjarnfóður og áburð. Þetta komi sérstaklega illa við skuldsett kúabú sem hafi staðið í uppbyggingu.

Þórólfur vill að mjólkurverð til bænda verði hækkað 1. apríl.

Hækkunin verði byggð á framreikningi sem meðal annars byggist á vaxtakostnaði, beingreiðslum og áburðarverði. „Fjárfestingalánin eru nú á hátt í níu prósenta vöxtum.“

Þórólfur segir brýnt að fyrir útreikningunum liggi raunveruleg staða kúabúanna og því þurfi Landssambandð að fá bráðabirgðauppgjör bænda fyrir síðasta ár í hendur sem fyrst.

Eins og er sé erfitt að spá fyrir um hversu mikilla hækkana bændur muni þarfnast.

Viðmiðunarverð á mjólkurlítranum til bænda er nú 49 krónur og 96 aurar.

Ef verð til bænda verður hækkað má gera ráð fyrir að hækkuninni verði á einhverjum tíma velt yfir á neytandann. Mjólkurlítrann má fá á bilinu 73 til 83 krónur út úr búð.- ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×