Betur settar?
Orð eins og „trúræði", „feðraveldi", „mannréttindi" og „kvenréttindi" sjást lítt í grein Bjargar en aftur á móti verður henni tíðrætt um „staðalmyndir" og náttúrlega „orðræðu". Hún þrástagast á því að Hirsi Ali hafi „tileinkað sér" tiltekna orðræðu, sem er sérkennilegt orðalag einnar menntakonu um aðra. Er átt við að Hirsi Ali tjái sig ekki sjálf um eigin hugsanir en hafi lært eins og páfagaukur að tala á tiltekinn hátt?
Björg telur að málflutningur Ali sé vatn á myllu þeirra sem halda á lofti staðalmyndum um önnur samfélög en vestræn og hún fari villur vegar þegar hún hylli vestræna menningu fyrir tjáningarfrelsi. Björgu þykir „mikilvægt að hafna þeirri tilhneigingu sem Hirsi Ali hefur til að gefa í skyn að sumar konur, í þessu tilfelli múslimskar konur, væru betur settar ef menning sú sem þær fæddust inn í myndi nánast leggjast af."
Eigum við þá að draga þá ályktun að þær séu betur settar undir trúræði og feðraveldi?
Virðing fyrir menningu annarra er vissulega dyggð og hæfileikinn til að setja sig í spor annarra með mikilsverðustu mannlegu eiginleikum ásamt forvitni og löngun til að skilja aðra. En öllu má ofgera. Og það ómerkir ekki málflutning Hirsi Ali hverjir taka undir hann. Okkur ber að hlusta á hana sjálfa.
Mannréttindi eru algild Sé það satt sem Björg segir að „femínískar fræðikonur" virðist ekki í hópi öflugustu stuðningsmanna hennar sætir það furðu því að þó hún tali tæpitungulaust þá berst hún fyrir algildum kvenréttindum og mannréttindum - réttindum sem eru jafn mikilsverð í Afríku og í Hollandi.
Og þegar hún heldur því fram að hlutskipti kvenna sé betra á vesturlöndum en víða annars staðar þá hefur hún sitthvað til síns máls, þó að aldrei skuli alhæfa og hver og ein fjölskylda sé sértök. Og þar kemur til kastanna enn eitt lykilorðið sem Björg sneiðir hjá. Sekúlarismi.
Við erum svo lánsöm hér að gamla testamentið er ekki lagt til grundvallar nokkrum hlut nema hjá stöku trúfífli. Það er ekki vegna yfirburða okkar heldur eru þetta harðsótt réttindi sem margir hafa látið lífið fyrir.
Taslima Nasreen sem deilir verðlaununum með Hirsi Ali er landflótta og dæmd til dauða vegna skrifa sinna um hlutskipti kvenna í Bangla Desh en áður en hún lagði ritstörf fyrir sig starfaði hún sem kvensjúkdómalæknir í landi sínu. Björg telur ef til vill að Simone de Beauvoir snúist annan hring í gröfinni vegna þess að í sínu nafni sé slík kona heiðruð - það er ekki gott að segja, henni þykir ekki taka því að ræða um hana. En Taslima hefur skrifað á heimasíðu sína, og kann að vera fróðlegt fyrir Björgu:
„Mannkynið stendur frammi fyrir óvissu og líkur á nýjum deilum og átökum grúfa yfir okkur. Átökin eru milli tveggja ólíkra meginhugmynda, sekúlarisma og bókstafstrúar. Ég er ekki sammála þeim sem telja að átökin standi milli tvenns konar trúarbragða, það er að segja kristindóms
og íslams, eða gyðingdóms og íslams. Það eru nefnilega bókstafstrúarmenn í öllum trúarsamfélögum. Ég er ekki sammála því fólki sem telur að krossferðir miðalda verði senn endurteknar. Né held ég að þetta séu átök Austurs og Vesturs. Fyrir mér eru þessi átök milli nútímalegrar, skynsamlegrar rökhugsunar og óskynsamlegrar og blindrar
trúar. Fyrir mér eru þetta átök milli þeirra sem aðhyllast nútímann og þeirra sem eru andvígir nútímanum. Sumir vilja ganga áfram en aðrir afturábak. Þetta eru átök milli framtíðarinnar og fortíðarinnar, milli frumleika og hefðar, milli þeirra sem frelsinu unna og hinna sem það gera ekki."
Ég held að Simone sé alveg róleg í gröfinni …