Handbolti

Ég held ég hafi bara aldrei lent í öðru eins

Sverre Jakobsson
Sverre Jakobsson
Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, fékk slæma vírussýkingu á LK-mótinu í Danmörku um síðustu helgi og gat ekki leikið síðasta leik Íslands í mótinu gegn Danmörku.



„Þetta eru búnir að vera svakalegir dagar og ég held ég hafi bara aldrei lent í öðru eins," sagði Sverre sem byrjaði að finna fyrir óþægindunum fyrir leik Íslands og Noregs á laugardeginum.



„Ég fann að ég var eitthvað að veikjast fyrir leikinn gegn Norðmönnum en lét mig hafa það að spila leikinn og hélt að þetta væri nú ekkert stórmál. Mig grunaði helst að allir þessir próteindrykkir og vítamín sem við erum búnir að vera að borða hafi farið eitthvað illa í mig, en „partíið" byrjaði svo á laugardagskvöldið. Ég svaf lítið næstu nætur á eftir og gat ekki haldið neinu niðri," sagði Sverre sem hefur mikið til verið á sjúkrahúsi síðan hann kom aftur heim til Íslands á sunnudagskvöld.



„Það var svo strax reynt að koma einhverjum mat og vökva í mig og ég hef verið í meðferð á sjúkrahúsi síðan á sunnudagskvöld þar sem ég fæ vökvanæringu í æð. Ég var enn mjög slappur á mánudaginn en leið strax betur á þriðjudeginum og ældi ekki í einhverja tíu tíma sem var mikil framför," sagði Sverre í léttum dúr og leið að sögn enn betur í gær.



„Það er kannski merki um að mér sé farið að líða betur að ég get grínast með þetta og get hlegið að sjálfum mér, en mér var ekki hlátur í huga um helgina og á mánudaginn," sagði Sverre sem stefnir ótrauður að því að vera með á Evrópumótinu sem hefst 17. janúar næstkomandi.



„Ég ætla að taka því rólega og reyna ná mér sæmilegum á næstu dögum fram að helgi og svo vonandi get ég farið að gera eitthvað með landsliðinu fljótlega. Það hefur allavega enginn afskrifað það að ég taki þátt í Evrópumótinu enn þannig að ég sé enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn á að geta verið með í mótinu," sagði Sverre sem var útskrifaður af sjúkrahúsinu í gær, en fer aftur til skoðunar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×