Fastir pennar

Dvínandi afli í Evrópu

Þorvaldur Gylfason skrifar

Evrópusambandið var í öndverðu reist á þeirri snjöllu hugmynd, að millilandaátök um náttúruauðlindir, einkum kol og stál, hefðu haft svo hörmulegar afleiðingar í álfunni, þar á meðal þrjár styrjaldir á sjötíu árum, að nauðsyn bæri til að færa þessar auðlindir undir sameiginlega yfirstjórn til að koma í veg fyrir frekari stríðsátök í Evrópu.

Þessi hugsjón um samstjórn á hernaðarlega mikilvægum auðlindum gafst svo vel, að Evrópa hefur æ síðan lifað í friði við sjálfa sig. Væri sömu hyggindum til að dreifa í Austurlöndum nær, væri nú friðvænlegra þar, en látum það vera að sinni. Hér langar mig að velta upp öðru máli: Hverju sætir það, að efnahags- og myntbandalagi, sem var reist á hugsjón um sameiginleg umráð yfir mikilvægum náttúruauðlindum, hafi verið svo mislagðar hendur sem raun ber vitni um stjórn mikilvægrar, en þó ekki hernaðarlega mikilvægrar, náttúruauðlindar? - fisks.

Hvað brást?

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB er flopp. Höfuðmarkmið hennar var frá upphafi 1983 að varðveita fiskstofna á evrópskum hafsvæðum með sjálfbærri fiskveiðistjórn, en það hefur mistekizt herfilega. Þessi brestur þarf ekki að koma á óvart, því að fiskveiðistefnan er skilgetið afkvæmi sameiginlegrar landbúnaðarstefnu, sem heldur áfram að kosta evrópska neytendur og skattgreiðendur mikið fé. Landbúnaðarstefna ESB kostar að vísu minna nú en hún gerði fyrir tuttugu árum, eða rösklega eitt prósent af landsframleiðslu ESB nú á móti tveim til þrem prósentum þá. Þessi samdráttur stafar einkum af því, að hlutur landbúnaðar í landsframleiðslu álfunnar hefur á sama tíma minnkað úr fjórum prósentum í tvö prósent. Evrópskur landbúnaður mun áreiðanlega komast af, þótt tækniframfarir og frekari umbætur á búverndarstefnunni haldi áfram að draga úr vinnuaflsþörf í landbúnaði.

Framtíð evrópsks sjávarútvegs er meiri óvissu undirorpin, því að þar veltur allt á sjálfbærum búskap. Margir fiskstofnar í lögsögu ESB-landanna hafa rýrnað og ramba á barmi útrýmingar þrátt fyrir mýgrút laga og reglna til að hamla sjósókn og styrkja útgerð. Geðklofinn í fiskveiðistjórninni blasir við: stjórnmálamenn reyna með annarri hendinni að hefta sjósókn og niðurgreiða útveginn með hinni. Þorskstofninn í Norðursjó hefur skroppið saman um þrjá fjórðu síðustu þrjátíu ár. Túnfiskstofninn í Miðjarðarhafi virðist hafa farið sömu leið. Kvótakerfi ESB er í aðalatriðum eins og íslenzka kvótakerfið að öðru leyti en því, að framsal aflaheimilda er ekki frjálst og veiðigjald hefur ekki heldur verið leitt í lög til málamynda. Vandinn þar er í grófum dráttum hinn sami og hér: sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna ákveða í sameiningu árlegt aflamark einstakra tegunda á ólíkum hafsvæðum í ljósi stofnmats fiskifræðinga og óska útvegsins, og þá hallar á þorskinn. Heimamönnum í hverju landi er síðan falið að skipta kvótanum á milli sín. Lönd geta skipzt á kvótum, ef þau vilja.

Fjórir brestirSameiginleg fiskveiðistefna ESB hefur að minni hyggju fjóra mikilvæga galla og hlaut því að missa marks. Í fyrsta lagi eru sjávarútvegsráðherrar aðildarlandanna samkvæmt langri hefð yfirleitt svo nátengdir útveginum, að kvótarnir, sem þeir ákveða, eru oftast nær mun meiri en fiskifræðingar telja stofnana þola. Fiskifræðingum er uppálagt að miða veiðiráðgjöf við ástand stofnanna langt fram í tímann án tillits til annarra hagsmuna, en stjórnmálamenn hugsa einnig um hag útvegsins fram að næstu kosningum, og einstökum útgerðum er skiljanlega mest í mun að ná til sín sem mestum hluta kvótans. Í annan stað er kvótum ESB úthlutað ókeypis til aðildarlanda, sem dreifa þeim síðan til einstakra útvegsfyrirtækja heima fyrir, einnig án endurgjalds. Þetta fyrirkomulag jafngildir gríðarlegum fjárstyrk til evrópskrar útgerðar og dregur þrótt úr henni. Í þriðja lagi geta kvótarnir ekki gengið kaupum og sölum og gera það yfirleitt ekki, þótt lönd geti skipzt á kvótum. Í fjórða lagi hvetur endurgjaldslaus úthlutun aflakvóta til brottkasts, sem ESB sjálft telur nema nálægt helmingi heildaraflans á fiskimiðum aðildarlandanna. Hvað er þá til ráða? Meira næst.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×