Viðskipti erlent

Tóku út 260 milljarða á tveimur dögum

Langar biðraðir voru fyrir utan útibú Northern Rock bankans í Bretlandi í gær og fyrradag.
Langar biðraðir voru fyrir utan útibú Northern Rock bankans í Bretlandi í gær og fyrradag. MYND/AP

Viðskiptavinir Northern Rock bankans í Bretlandi hafa tekið út sem samsvarar um 260 milljörðum króna út úr bankanum á síðustu tveimur dögum vegna frétta af erfiðleikum bankans. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Viðskiptavinir streymdu í útibú bankans í gær og fyrradag eftir að fréttir bárust af því að þessi stærsti fasteignalánabanki Bretlands hefði fengið neyðarlán hjá Seðlabanka Englands vegna skorts á lausafé. Forsvarsmenn bankans bjuggust við að hærri upphæð yrði tekin út úr bankanum en sérfræðingar útiloka ekki að fólk haldi áfram að sækja peningana sína í Northern Rock eftir helgi.

Fjármálaeftirlitið í Bretlandi hefur nú stutt þær fullyrðingar fjármálaráðuneytisins að bankinn ráði vel við ástandið. Forstjóri eftirlitsins segir að bankanum hefði ekki verið leyft að starfa áfram ef hann hefði ekki haft bolmagn til þess.

Þá greinir BBC frá því að tveir bankar hafi haft áhuga á að kaupa Northern Rock en horfið frá þar sem Englandsbanki hafi ekki ekki viljað veita þeim lán til kaupanna, en Northern Rock er metinn á 113 milljarða punda, jafnvirði um 14.700 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×