Össur hf. hefur selt kauprétt að húsnæði félagsins að Grjóthálsi 5 fyrir 7,9 milljónir Bandaríkjadala. Það nemur rúmum 489 milljónum íslenskra króna. „Við höfum verið að leigja húsnæðið hér í tíu ár, frá því árið 1997. Í þeim leigusamningi var kaupréttarákvæði sem miðaðist við markaðsverð þess tíma. Síðan hefur það hækkað mjög í virði. Því var mjög hagstætt fyrir okkur að selja kaupréttinn,“ segir Sigurborg Arnarsdóttir, fjárfestatengill Össurar.
Upphæðin verður tekjufærð sem aðrar tekjur á fjórða ársfjórðungi 2007 og mun auka hagnað félagsins fyrir skatta sem því nemur.
Salan hefur ekki aðrar breytingar í för með sér fyrir Össur. „Það er í raun ekkert að breytast hjá okkur. Höfuðstöðvar okkar eru enn á Grjóthálsi og ekki stendur til að fara þaðan.“ - hhs