Viðskipti innlent

Viðskiptahallinn 51 milljarður

MYND/GVA

Viðskiptahallinn á Íslandi var 51 milljarður króna á öðrum fjórðungi ársins 2007. Á fyrsta ársfjórðungi var hallinn 29 milljarðar og því lætur nærri að viðskiptahallinn hafi tvöfaldast. Í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands segir að aukningin skýrist af meiri halla á vöruskiptajöfnuði en hann var 31 milljarður samanborið við átta milljarða á fyrsta ársfjórðungi.

Þjónustujöfnuður og jöfnuður þáttatekna voru hins vegar nánast óbreyttir á milli fjórðunga. Hreint fjárinnstreymi var 158,4 milljarðar á öðrum fjórðungi og er það mikill viðsnúningur frá fyrsta fjórðungi þegar um fjárútstreymi upp á 22 milljarðar króna var að ræða. Þetta skýrir Seðlabankinn með því að bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hafi verið 100 milljörðum meiri auk þess sem erlendar lántökur hafi aukist um 110 milljarðar á milli fjórðunga.

Þá var hrein staða við útlönd neikvæð um 1.472 milljarða króna í lok annars ársfjórðungs og hafði hún versnað um 133 milljarðar á ársfjórðungnum. Erlendar skammtímaskuldir hækkuðu á sama tíma, einkum vegna hækkunar á innstæðum erlendra aðila í innlendum innlánsstofnunum, að því er segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×