Handbolti

Flensburg hélt toppsætinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í dag.
Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í dag. Nordic Photos / Bongarts

Flensburg hélt í dag toppsætinu í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta með sigri á Rhein-Neckar Löwen, 36-28.

Alexander Petersson lék með Flensburg en hann hefur átt undanfarið við meiðsli að stríða. Hann skoraði þrjú mörk í leiknum. Einar Hólmgeirsson lék ekki með Flensburg í dag.

Flesnburg er með 27 stig á toppi deildarinnar, rétt eins og Hamburg sem vann fjögurra marka sigur á Nordhorn í dag, 30-26.

Kiel er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig en liðið vann Göppingen í dag, 28-24. Jaliesky Garcia skoraði þrjú mörk fyrir Göppingen.

Þórir Ólafsson á við meiðsli að stríða og lék ekki með Lübbecke sem vann mikilvægan sigur á Minden á heimavelli í dag, 33-25. Birkir Ívar Guðmundsson stóð í markinu hjá Lübbecke.

Lübbecke er í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig, rétt eins og Minden.

Þá tapaði botnliðið, Essen, á heimavelli fyrir Wetzlar í dag, 34-27.

Þremur leikjum í deildinni er enn ólokið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×